Hver er ég

Hagfræðingur á fertugsaldri sem var nógu latur til að hanga heima í sex ár við að klára tvær B.Sc. gráður, hina í tölvunarfræði. Það þýðir auðvítað ólæknandi nördisma, sem er aðeins viðbjargað af vöntun á þráhyggju í málunum. Er þar af leiðandi alltaf að tölvugrúska án þess þó að gera neitt ódauðlegt, eins og til dæmis að setja upp Línux þannig að virki. Ég vinn ekki við hagfræði, heldur afleiðuviðskipti, en nota að auki forritunarhæfnina við að smíða litlar ASP.NET og SQL lausnir í vinnunni þegar á þarf að halda.

Stór hluti þessarar síðu eru myndirnar mínar, aðallega úr ferðalögum. Ég hef farið í nokkrar góðar ferðir en þær allra bestu voru vikurnar fimm í Ástralíu og Nýja Sjálandi árið 2000 og dagurinn í Barcelona 1999.

Það eru næstum þrjú ár síðan ég fór að blogga Bjarnarbloggið. Það var á ensku um tíma en síðan kom ég meira inn í íslenska bloggheima og skipti aftur. Mér datt einhvern tímann í hug að setja lengri pistla á blað og setti upp Blaðurskjóðuna, en hún er fjarri því að vera full.

Lestrarhestur

Lestrarhestur er ég. Einhvern tímann var skoðanakönnun á innravefnum í vinnunni þar sem um helmingur kvaðst lesa 5 bækur á ári eða færri. Þannig að ég tók mig til einn góðan sunnudag og hamraði mér í gegnum fimm stykki þann daginn. Ég les fyrst og fremst vísindaskáldsögur, fantasíur og reyfara. Uppáhaldshöfundurinn minn er Iain Banks og Iain M. Banks, en undanfarið hafa margir góðir 'hard SF' höfundar komið frá Bretlandi. Pratchett var alltaf númer eitt en ég er ekki eins upprifinn síðari ár. Það er þó honum að þakka að ég á fjölda vina út um allan heim og fer árlega ýmist á Discworld ráðstefnu eða Clarecraft mót, sem nú er reyndar hætt. Annars eru hér frekari bókaþankar.

Heimurinn og ég.

Ég er hægri sinnaður miðjumaður, styð jafnrétti og er trúlaus. Af vinnufélögum mínum eru fáir jafn vinstri sinnaðir og ég, en í bloggheimum og meðal vina minna í Englandi er ég iðulega hægrinötterinn í hópnum. Þetta litar stundum minn málflutning og er þónokkuð skrýtið. Eins og títt er um marga með mínar skoðanir, vinstri sinnaða íhaldsmenn, hægri sinnaða samfylkingarmenn og þess háttar er ég næsta flokkslaus. Er genetískur framsóknarmaður og studdi stjórnina um tíma en gafst svo upp.

Úti meðal fólksins

Þangað til þessi blogg öll byrjuðu voru engir íslenskir vinir mínir með vefsíður. Það hefur breyst og nú eru meira að segja vinnufélagar að blogga. Linkarnir eru allir hægra megin. Hérna má hins vegar finna meira um alt.fan.pratchett og hvernig þessi gamli Usenet fréttahópur hefur haft áhrif á mig og líf mitt

Mín litlu leyndarmál

Ég er sælgætisgrís og þarf að beita mig hörku til að sitja á mér, hef tvisvar farið í stórátak til að léttast. Einu sinni drakk ég 3 lítra af kóki á dag með tilheyrandi nammi- og flöguáti. Þá hætti ég í gosi í 6 mánuði (það var samt vel fyrir fyrra stórátakið!) og eftir það hef ég aldrei farið í sama farið þó stundum hafi ég verið aðeins of góður við sjálfan mig. Ég tel sjálfan mig góðan kokk en elda sjaldan almennilega, nenni því ekki fyrir sjálfan mig og hef sjaldan gesti þó alltaf sé það jafn gaman. Viskí drekk ég gjarnan, en sjaldan eða aldrei einn. Þá er bara um að ræða alvöru maltviskí en þó er uppáhaldið mitt ekki skoskt heldur eðaldrykkurinn Midleton's, yndislegt og írskt. Ég kynntist því á fyrstu Discworld ráðstefnunni. Annars er uppáhalds 12 ára viskíið mitt Macallan og eldri tegundir af því eiga heiðursess í viskískápnum. Það má segja að fyrstu alvöru kynni mín af áfengi (í kringum 21 árs aldur) voru af Napóleon koníaki og síðan þá hef ég alltaf dáð gott koníak, reyndar þannig að ég drekk helst ekki nema XO og betra, og þá finnst mér Remy Martin best. Kaffi er hættuminni drykkur í dagdrykkju og síðan ég fékk mér loksins alsjálfvirka Saeco Incanto espressóvél er ég hættur að fá höfuðverk á sunnudagseftirmiðdögum þegar ég hef ekki nennt að búa til kaffi. Vélin skilar yndislegum espressóbolla úr nýmöluðu þegar ýtt er á takka og jafnvel þokkalegu ristrettó líka.