Fyrir utan PTerry, hef ég verulega breiðan smekk fyrir bókum. Sama má segja um aðra afpera... Uppáhaldshöfundurinn minn er Iain Banks og Iain M. Banks, sem er jafn frábær þegar hann skrifar vísindaskáldsögur, oft um The Culture  og þá með M.-inu og þegar hann skrifar "alvöru" skáldsögur án M-sins. Uppáhaldsbókin mín er "The Crow Road". Þá er ég kannski ekki að segja að þetta sé besta bók sem ég hef lesið, en ég hef alltaf jafn mikla ánægju af að lesa hana.

Aðrir höfundar sem ég kaupi reglulega eru m.a. Arthur C. Clarke, Patricia Cornwell, Dick Francis (nýjasta bókin er reyndar arfaslök, hann ætti að hætt þessu karlinn), Stephen Fry, Sue Grafton, Stephen King, og Ed McBain . Ein besta "alvöruvísinda"skáldsögu þrenna sem ég hef lesið er Mars þrenna Kim Stanley Robinson. Höfundar sem hafa nýlega bæst á "Verð að kaupa" listann eru David Brin, Lois McMasters Bujold, Jonathan Kellerman og Ian Rankin.

Ég er loksins farinn að lesa Sandman teiknisögurnar eftir Neil Gaiman og er það betra seint en aldrei. Sömuleiðis á ég nú allar Fafhrd & the Gray Mouser sögur Fritz Leiber í safnútgáfu.

Kóngurinn er J.R.R. Tolkien (öll saman nú: frb: Tollkín). Mikið vildi ég óska að Hringadróttinssaga væri betur þýdd, og betur farið með mál álfa og manna. Hamsturinn fljúgandi hefur sett saman góðan lista yfir hina ýmsu Tolkien vefi og auk þess finnst mér þessi frábær.

Klassísk eru alltaf P.G. Wodehouse, Isaac Asimov, Agatha Christie, Ngaio Marsh og Frank Herbert.

"Popular Science" er skemmtilegt viðfangsefni, þar fara fremstir Stephen Jay Gould og Richard Dawkins, en John Gribbin skrifar líka læsilega. ég vil sérstaklega benda á tvær gagnrýnar greinar um bók Gould, "The Mismeasure of Man", ( 1 og 2). Gould hefur endurútgefið þá bók, en ég hef ekki lesið nýju útgáfuna og veit ekki hvort hún svarar gagnrýninni. Þessi gagnrýni kastar þó engum skugga á önnur skrif Gould. Hins vegar er Daniel Dennet mjög gagnrýninn á Gould í frábærri bók sinni "Darwin's Dangerous Idea". Mæli með henni.

Aðrir höfundar sem ég á mikið af, en eru misgóðir eru Len Deighton, James Lee Burke, William Horwood, Clive Cussler, John Grisham, Dean Koontz, Bernard Cornwell, M.C.Beaton (hennar Hamish McBeth á fátt skylt með frábærri sjónvarpsútgáfunni með Robert Carlyle), Lilian Jackson Braun, Robert Rankin, John Mortimer, David Lodge, Tom Holt, Robert B. Parker o.fl.

Auðvitað á ég líka gott safn fótboltabóka (og eitthvað um 1500 fótboltablöð).