Mín aðferð

Ég get ekki sagt að aðferðin mín við að skafa af mér fituna sé mjög til eftirbreytni, jafnvel frekar erfið, gekk aðallega út að að borða mjög lítið og þá hollt, mikið skyr og hafa grænmeti í uppfyllingu með hádegismatnum, og svo lítinn sem engan kvöldmat (2-3 skyrskeiðar, fjölkornasamloku með engu viðbiti, einni skinkusneið). En hún virkar fyrir mig og hefur núna gert tvisvar. Ég fór úr 86 í 69 kíló fyrir þrem árum, tikkaði síðan aðeins hægt og rólega upp, tók árlega smá sköfu og fór ekki að fara að alvöru upp fyrr en í fyrrasumar, var 78 um ára mót og var kominn í 82 í sumar. Ólíkt síðustu léttun er ég hins vegar að æfa núna og held ég geti haldið því bara nokkuð vel áfram og byggt mig upp. Ég er alla vega í besta formi sem ég hef verið í.

Það fylgir svona átaki að hafa áhuga á því sem aðrir eru að gera, ég hef ekki haft mikla trú á 'kúrum' þó vissulega sé það sem ég hafi verið að gera verið ekki alveg óskylt Atkins, ég var mikið í skyrinu (prótein) og minnkaði verulega kolvetnin, en það er fyrst og fremst af því að kolvetnin geta verið svo ávanabindandi og kalla á meira (rosalega var brauðið gott í gærmorgun...) og þar af leiðandi er þetta bara kaloríuspursmál, ekki að kolvetnin séu óholl per se.

DDV

Ég rakst fyrst á DDVið fyrir nokkru síðan hjá Gunnari Frey og skoðaði nokkur af átaksbloggunum og leist nokkuð vel á kúrinn, enda hafa þær margar (karlmenn blogga ekki um megrun, alla jafna, ekki nógu makkó) náð stórgóðum árangri. Núna er ég hálfnaður að kíkja á þáttinn hjá Sirrý þar sem farið var yfir DDV og nokkrir átaksbloggarar komu fram. Sé þá kunnuglegt andlit, enda er þetta Ísland, þarna var Sigurður Freyr fyrrum vinnufélagi búinn að slaka 17 kílóum í kjölfar konunnar, Súper S. Ég held að þetta sé með betri leiðum að léttara lífi. Ekki spillir félagsskapurinn, það var jú veðmálið í vinnunni sem startaði mér alvarlega!

Hacker's Diet og The Body Fat Guy

Sá 'kúr' sem kannske veitti mér mestan innblástur hér um árið var samt hakkarakúrinn, The Hacker's Diet. Þetta er einfaldlega lífsstíll sem byggir á kaloríutalningu. Farið er í gegnum hvernig maður fitnar af því að borða of mikið og það er ekki þessi innbyggða feedback sem segir að nóg sé komið. Þess vegna þarf að fylgjast sjálfur með. Trikkið er að höfundurinn er nörd, hakkari, sem er eðlislægt að taka á vandamálunum skipulega, tæknilega og með nokkurri þráhyggju. Það á ágætlega við um mig. Í innganginum segir "'How can I lose weight?' 'Simple, eat less food than your body burns.'"

Þetta er ekki flókið. Þetta er bara erfitt.

Eitt af því sem ég tók þarna upp fyrir nokkrum árum voru daglegar mælingar. Ég reyndar byrjaði ekki á þeim fyrr en undir lok fyrstu léttunarinnar, en hef gert það í þau 2-3 skipti sem ég tók af mér 2-3 kíló síðustu árin, og síðan staðfastlega síðustu 10 vikurnar. Ekki nóg með það heldur hef ég líka fitumælt mig daglega (viktin sér um það). Þetta þýðir stöðugt eftirlit og er nauðsynlegt bæði í léttunarfasanum og ekki í síður í viðhaldsfasanum, vegna þess að á viktunar tekur maður ekki eftir þyngdar aukningu fyrr en 2-4 kíló hafa bæst á og þá er ekki nóg að taka sig aðeins á, þá þarf 3-4 vikna extra aðhald.

Þetta sama atriði tekur Líkamsfitugaurinn líka fyrir. Þetta er kannske ekki best hannaða síðan á netinu og undirsíðurnar eru geysimargar, en þetta er proppfullt af skynsömum ráðum, sumt eru svona selvfölgeligheder, sem margir gera sér ekki grein fyrir. Það er t.d. gott að gera sér grein fyrir að maður brennir jafn mörgum kaloríum á að ganga ákveðna vegalengd og að hlaupa sömu vegalengd, nema hvað í fyrra tilfellinu brennir maður fleiri kaloríum úr fitu en í því síðara þar sem frekar er brennt glýkogenum úr vöðvum, amk fyrir þá sem eru ekki í fantaformi! Hef ekki hlaðið niður bókinni hans sem auglýst er á hverri síðu, en þarna eru mörg góð ráð á vefnum og markt sem gott er að hugsa um.

T.d. segir hann einmitt að maður eigi að vikta sig á hverjum degi, og fyrir þá sem segja að það sé þráhyggja svarar hann að þetta sé ekki hægt nema með ákveðinni þráhyggju.

Ókeypis ráð

Sem sé ef einhver ætti að spyrja mig hvernig á að grennast myndi ég segja, án ábyrgðar auðvitað:

  • Borðið færri kaloríur en þið brennið.
  • Viktið ykkur á hverjum degi, á sama tíma, og fitumælið helst líka. Þetta er það eina sem ég sé að hjá DDV.
  • Mælið trendið, þróunina. Trend gildi í dag = (trendgildi í gær sinnum 0,9) plús (þyngd í dag sinnum 0,1). Fyrsta gildið er bara núþyngd. Sjá Hacker's Diet. Trendið sýnir árangurinn betur og er mikilvægt aðhaldstæki þegar í viðhaldsfasann er komið.
  • Skyr er gott. En ekki ef það er með viðbættum sykri
  • Gulrætur og smátómatar eru gott snakk. En athugið að ástæðan fyrir því smágulrætur eru sætar á bragðið, er, tja, sykur. Ekki of mikið. Og mér skilst að fjórir stórir tómatar sé hámark á dag.
  • Róleg og löng æfing getur skila meiru en gargandi átök. Sér í lagi er auðveldara að gefast upp á því síðarnefnda. Mælið kaloríubrunann.
  • Æfing gerir ykkur svöng. Ef markmiðið er fyrst og fremst fitubrennsla er æfing sem brennir 500 kkal gagnslítil ef á eftir er tekin auka neysla upp á 600 kkal. Passa það.
  • Þetta er ekki flókið. Þetta er bara erfitt.
  • Og ein hér að lokum sem ég hef sjálfur getað fylgt en er helv erfitt: Það er allt í lagi að fara svangur að sofa.
29. október 2005