Laugardagur 20. ágúst 1994
Ábm: Björn Friðgeir Björnsson
Nú kemur Berserkur aftur fyrir augu lesenda, eftir nokkurt hlé. Í undanförnum leikjum hefur okkur gengið mjög vel og unnið þrjá síðustu leiki, samanlagt 12-2, KA var lagt í Víkinni 3-0 (Óskar 2, Steindór) og verður sá leikur lengi í minnum hafður fyrir hetjulega frammistöðu Björns Bjartmarz í markinu eftir að Axel Gomez varð að fara meiddur af velli. Þessu næst var farin frækin ferð á Selfoss og heimamenn unnir 5-1 (Sigurgeir, Steindór, Bjössi 2, Arnar Arnarson). Sérdeilis glæsilegt var mark Arnars. Á föstudag fyrir viku voru svo Þróttarar í Reykjavík sóttir heim og unnir 4-1 (Sigurgeir, Steindór, Guðmundur, Marteinn (víti)).
Nú kemur efsta lið deildarinnar í heimsókn og nú er að hrökkva eða stökkva. Ef leikurinn vinnst þá eigum við enn von um að spila í 1. deild að ári en tapist hann má leggja slíka drauma á hilluna þetta árið.
Hörður fyrirliði er í leikbanni í dag vegna fjögurra gulra spjalda, en Stefán Ómarsson verður aftur með eftir að hafa verið í banni gegn Þrótti. Grindvíkingurinn Grétar Einarsson er einnig í banni.
Grindvíkingar hafa spilað mjög vel í sumar og eru efstir í annarri deild og eru komnir í úrslit bikarkeppninnar gegn KR-ingum. Berserkur lýsir hér með yfir stuðningi við þá í þeim leik og óskar Grindvíkingum sigurs í bikarkeppninni. Hér í Víkinni fylgja hins vegar ekki slíkar óskir og nú verður það engin vítakeppni sem bjargar Grindvíkingum. Það verður hins vegar gaman að sjá hvort Marteinn getur séð við Hauki Bragasyni ef Víkingar fá víti.
Í gær gerðist það helst að Leiftur náði einungis jafntefli við HK og því er ljóst að Víkingar eiga enn möguleika á að komast upp í fyrstu deild að ári, en til þess að það náist þurfa allir þeir leikir sem eftir eru að vinnast, og Leiftur að tapa a.m.k. einum leik (t.d. gegn Grindavík) og Þróttur þarf einnig að tapa stigum. Þessi möguleiki er kannske ekki mikill en þó að við komumst ekki upp nú, þá gefur leikur liðsins í undanförnum leikjum góðar vonir um framhaldið og enn betra gengi næsta sumar.
Næstu leikir
Þróttur N (Ú) 27.ágúst
Leiftur (H) 3. september
Fylkir (Ú) 10. september